„Barneignir og erfiðar áskoranir“ hlaut þriðju verðlaun

Verkefni Hildar Sigurðardóttur, lektors við Hjúkrunarfræðideild og ljósmóður hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi, hlaut þriðju verðlaun í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2015 sem afhent voru fimmtudaginn 19. nóvember sl. Verkefni Hildar ber heitið „Barneignir og erfiðar áskoranir. Þróun meðferðarþjónustu fyrir ungt fólk er tekst á við lífsbreytingar og erfiðar áskoranir vegna barneignareynslu“ og hlaut það hálfa milljóna króna í verðlaun.

Hildur vinnur að þróun mælitækja sem kanna annars vegar viðhorf kvenna til brjóstagjafar og hins vegar til fæðingarinnar sjálfrar, svo sem fæðingarótta og áfallastreitueinkenna. Auk þess er unnið að mælitæki til að meta lífsgæði foreldra sem takast á við ófrjósemi og meðferð sem tengist henni. Jafnhliða þróun á mælitækjunum er þróuð stuðnings- og meðferðarþjónusta fyrir mæður og foreldra sem glíma við erfiða líðan vegna þeirra lífsbreytinga sem barneignir hafa í för með sér. Með því að nýta mælitækin er vonast til að unnt verði að grípa fyrr inn í og veita þeim foreldrum sem þurfa á að halda stuðning og jafnvel vinna gegn þróun alvarlegri geðrænna vandamála. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að verkefnið hafi mikinn samfélagslegan ávinning, sé mjög hagnýtt og langt á veg komið og með skýra fyrirhugaða framvindu um að treysta samstarf og aðkomu ólíkra aðila sem sinna þjónustu sem tengist verkefninu. 

Samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands hefur verið haldin með einum eða öðrum hætti í nærri tvo áratugi og er markmið hennar að hvetja starfsmenn og stúdenta til að þróa áfram hugmyndir og rannsóknarniðurstöður sem hagnýta má samfélaginu til góða. Að þessu sinni bárust tólf hugmyndir í samkeppnina frá flestum fræðasviðum skólans. Þrenn verðlaun voru veitt að þessu sinni, en verðlaunafé í samkeppninni var tvöfalt meira en á síðasta ári.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en síðastnefndu aðilarnir leggja sigurvegurum m.a. til sérfræðiráðgjöf auk þess að taka þátt í dómnefndarstörfum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is