Fjölmennt á Hjúkrun í fararbroddi 2016

Tæplega fjögur hundruð þátttakendur sóttu ráðstefnuna „Hjúkrun í fararbroddi“ sem Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði (RSH) stóð fyrir í Stakkahlíð í gær. Á ráðstefnunni var greint frá 35 spennandi rannsóknum í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði í átta málstofum.

Ráðstefnuna setti Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild og formaður stjórnar Rannsóknastofnunar í Hjúkrunarfræði. Helga Jónsdóttir, forseti Hjúkrunarfræðideildar, kynnti nýjar áherslur í námi við deildina og Sóley Bender, formaður stýrihóps um Heilsutorg háskólanema, flutti erindi um Heilsutorgið. Eins og fyrr segir voru erindin á ráðstefnunni flutt í átta málstofum og var yfirskrift þeirra: klínísk hjúkrun, meðganga og fæðing, verkir og verkjameðferð, fjölskylduhjúkrun, heilbrigðisþjónusta, langvinnir sjúkdómar, sálfélagsleg líðan og starfsþróun. Ráðstefnugestum gafst einnig kostur á að sitja spennandi vinnusmiðjur sem fram fóru samhliða fyrirlestrunum. Þá stóð fjölbreytt veggspjaldasýning yfir allan daginn. Hér má skoða ágrip allra rannsókna sem kynnt voru á ráðstefnunni. 

Úthlutað var úr minningarsjóði Guðrúnar Marteinsdóttur en einn tilgangur sjóðsins er að veita nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum viðurkenningu fyrir góðan námsárangur á sviði heilsugæsluhjúkrunar. Styrkinn hlaut Sigríður Lilja Magnúsdóttir fyrir framúrskarandi námsárangur í heilsugæsluhjúkrun í BS-námi en viðurkenninguna afhenti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Sigríður Lilja vann ýmis verkefni í námskeiðinu Heilsugæsluhjúkrun. Hún skrifaði til að mynda forvarnarverkefni um netfíkn og fékk góða umsögn fyrir það. Einnig vann Sigríður Lilja lífstílsverkefni um reykingar á meðgöngu þar sem hún studdist við heilsueflingarlíkan Nolu Pender.

Ráðstefnan „Hjúkrun í fararbroddi“ var tileinkuð Guðrúnu Marteinsdóttur, fyrrverandi dósent við námsbraut í hjúkrunarfræði og einum af fyrstu fastráðnu kennurum námsbrautarinnar. Guðrún kenndi heilsugæsluhjúkrun og stjórnun og var frumkvöðull meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga á sviði heilsugæslu- og fjölskylduhjúkrunar. Guðrún var í doktorsnámi við Háskólann á Rhode Island, þar sem hún vann að rannsókn um áhugahvöt meðal kvenna til líkamsþjálfunar, þegar hún lést árið 1994.

Smellið hér til að skoða myndir frá ráðstefnunni. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is