Doktorsvörn í hjúkrunarfræði - Anna Ólafía Sigurðardóttir

Anna Ólafía Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði, sem ber heitið: Fjölskylduhjúkrunarmeðferð á barnadeildum - Family Systems Nursing Interventions inPediatric Settings, föstudaginn 29. apríl 2016 kl. 14:00 í Hátíðarsal í Aðalbyggingu, Sæmundargötu 2.

 

Andmælendur eru dr. Nancy J. Moules, prófessor við Háskólann í Calgary í Kanada, og
dr. Ragnar Bjarnason yfirlæknir og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Aðalleiðbeinandi og umsjónarkennari í verkefninu var dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Auk hennar sátu í doktorsnefndinni dr. Ann W. Garwick prófessor við Háskólann í Minnesota,  dr. Mary Kay Rayens prófessor við Háskólann í Kentucky-Lexington, dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, og dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Viðskiptafræðideild sama skóla.

Dr. Helga Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, stjórnar athöfninni.

Ágrip af rannsókn

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að hanna, þróa og prófa fræðslu- og stuðningsmeðferð fyrir fjölskyldur barna á barnadeildum. Rannsóknin byggir á fjórum ritrýndum greinum. Í fyrsta lagi var markmiðið að þróa fræðslu- og stuðningsmeðferð á veraldarvefnum fyrir fjölskyldur barna með krabbamein, meta gagnsemi viðkomandi heimasíðu og kanna áhrif meðferðarinnar á lífsgæði út frá sjónarmiðum barna og foreldra. Í öðru lagi að meta ávinning af tveimur meðferðarsamræðum við foreldra barna með astma hvað varðar fjölskyldustuðning og lífsgæði barnanna. Í þriðja lagi að kanna hvort fræðsla og þjálfun í aðferðum fjölskylduhjúkrunar fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður á kvenna- og barnasviði hefði áhrif á starfsálag, sjálfstæði í starfi, starfsánægju og stuðning á vinnustað. Að lokum var fjórða markmið rannsóknarinnar að kanna hvaða þættir spá fyrir um ánægju með heilbrigðisþjónustuna meðal foreldra barna  og unglinga, sem fengu þjónustu á barnadeildum kvenna- og barnasviðs Landspítalans.
Ein af forsendum rannsóknarinnar var sú að alvarleg veikindi barna eða unglinga hafa áhrif á alla innan fjölskyldunnar. Megin niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að foreldrar barna með krabbamein voru ánægðir með heimasíðuna og þótti hún gagnleg og hjálpleg.  Mæður barna með astma í tilraunahópi upplifðu marktækt meiri stuðning eftir fræðslu- og stuðningsmeðferðina. Auk þess fundu börnin, sem áttu foreldra sem tóku þátt í fræðslu- og stuðningsmeðferðinni, einnig til minni astma einkenna eftir fræðslu- og stuðningsmeðferðina sem foreldrarnir fengu, samanborið við börn foreldra í samanburðarhópi. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu einnig í ljós að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem töldu sig upplifa aukið starfsálag og hafa litla stjórn á aðstæðum mátu stuðning frá yfirmönnum og samstarfsfólki marktækt meiri ef þær höfðu farið á námskeið í fjölskylduhjúkrun.  Að lokum spáði fjölskyldustuðningur marktækt fyrir um ánægju foreldra með heilbrigðisþjónustuna. Þessar niðurstöður ættu að vera hjúkrunarfræðingum, og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, hvatning til að halda áfram að þróa og innleiða fræðslu- og stuðningsmeðferð á barnadeildum og stuðla að því að þessi heilbrigðisþjónusta verði partur af hefðbundinni þjónustu og starfsháttum barnadeilda.

Um doktorsefnið 

Anna Ólafía Sigurðardóttir er fædd á Ísafirði árið 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1979, BSc-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1983 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2002. Anna Ólafía hefur starfað á Barnaspítala Hringsins frá 1987, lengst af við stjórnun, en nú síðustu ár sem kennslustjóri, klínískur lektor og sérfræðingur í barnahjúkrun. Eiginmaður Önnu Ólafíu er Stefán Hrafnkelsson tölvuverkfræðingur. Þau eiga þrjú börn, Hrafnkel lækni, Arndísi Rós læknanema og Sigurð Davíð nema í rekstrarverkfræði. Anna Ólafía er dóttir Sigurðar Th. Ingvarssonar og Arndísar Ólafsdóttur.

Hvenær hefst þessi viðburður: 
29. apríl 2016 - 14:00

Staðsetning viðburðar: 
Aðalbygging

Nánari staðsetning:
Hátíðasal

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is