Doktorsvörn í ljósmóðurfræðum - Berglind Hálfdánsdóttir

Berglind Hálfdánsdóttir ver doktorsritgerð sína í ljósmóðurfræðum við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, sem ber heitið: Fyrirfram ákveðnar heimafæðingar á Íslandi: Forsendur, útkoma og áhrifaþættir. Planned home births in Iceland: Premise, outcome and influential factors, mánudaginn 2. maí 2016 kl. 13:00 í Hátíðarsal í Aðalbyggingu, Sæmundargötu 2.

Andmælendur eru dr. Ank de Jonge, dósent við Vrije Universiteit Amsterdam, og dr. Helga Zoéga, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi Berglindar í verkefninu var dr. Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Auk hennar sátu í doktorsnefndinni dr. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Alexander Kr. Smárason, prófessor við Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri, og dr. Ingegerd Hildingsson, prófessor við Háskólann í Uppsölum.

Dr. Helga Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, stjórnar athöfninni, sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.13.00.

Ágrip af rannsókn

Tíðni heimafæðinga á Íslandi hefur aukist hratt frá aldamótum. Nýlegar rannsóknir hafa að jafnaði sýnt lægri tíðni inngripa og heilsufarsvandamála hjá mæðrum eftir fyrirfram ákveðnar heimafæðingar, en útkoma nýbura hefur verið ólík í mismunandi löndum.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða sjálfræði kvenna um val á fæðingarstað, bera saman útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi og meta áhrif frábendinga og viðhorfa kvenna á útkomu fæðinga.

Ritgerðin er byggð á fjórum rannsóknargreinum. Rannsókn 1 var hugtakagreining á sjálfræði kvenna um val á fæðingarstað. Rannsóknir 2 og 3 voru afturvirkar ferilrannsóknir á öllu þýði 307 fyrirfram ákveðinna heimafæðinga á Íslandi 2005-2009 og pöruðu markmiðsúrtaki 921 fyrirfram ákveðinnar sjúkrahúsfæðingar hjá sambærilegum rannsóknarhópi. Rannsókn 4 var var framvirk ferilrannsókn á áhrifum viðhorfa kvenna til fæðinga á útkomu fæðinga.

Þeir þættir sem skilgreina sjálfræði kvenna um val á fæðingarstað eru upplýsing, hæfi og frelsi. Tíðni hríðaörvunar með lyfjum, mænurótardeyfingar og blæðingar eftir fæðingu ≥500 ml var marktækt lægri í fyrirfram ákveðnum heimafæðingum en sjúkrahúsfæðingum. Útkoma fyrirfram ákveðinna heimafæðinga var marktækt verri ef frábendingar voru til staðar. Áhrif frábendinga voru marktækt neikvæðari í fyrirfram ákveðnum heimafæðingum en í sjúkrahúsfæðingum. Viðhorf kvenna til fæðinga og inngripa hafði áhrif á sambandið milli viðhorfa þeirra til heimafæðinga og útkomu fæðinganna. Sú þekking sem birtist í þessari rannsókn mun auðvelda upplýst val kvenna á fæðingarstað á Íslandi.

 

Um doktorsefnið

Berglind Hálfdánsdóttir er fædd árið 1973 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1993. Hún lauk BSc-gráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands árið 2004, Cand.Obst.-gráðu í ljósmóðurfræði frá sama skóla árið 2007 og MSc-gráðu í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Berglind innritaðist í doktorsnám við sama skóla árið 2012. Hún hefur starfað sem ljósmóðir við meðgönguvernd og fæðingarfræðslu á heilsugæslustöðvum Lágmúla, Hlíðasvæðis og Efstaleitis, við fæðingarþjónustu á Landspítala og Heilbrigðisstofnun Vesturlands og sem sjálfstætt starfandi ljósmóðir við heimaþjónustu í sængurlegu. Hún er gift Páli Einarssyni og eiga þau þrjú börn, Björgúlf Egil, 21 árs, Hálfdán Hörð, 17 ára, og Matthildi Maríu, 11 ára.

 

Hvenær hefst þessi viðburður: 
2. maí 2016 - 13:00

Staðsetning viðburðar: 
Aðalbygging

Nánari staðsetning:
Hátíðasal

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is