Doktorsvörn í hjúkrunarfræði - Margrét Gísladóttir

Margrét Gísladóttir ver doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði sem ber heitið: Árangur fræðslu- og stuðningsmeðferðar fyrir nána aðstandendur einstaklinga með átröskun eða athyglisbrest og ofvirkni. The Benefit of Psycho-Educational and Support Intervention for Caregivers of Individuals with Eating Disorder or Attention Deficit Hyperactivity Disorder, föstudaginn 16. desember 2016 kl. 13:00 í Hátíðarsal í Aðalbyggingu, Sæmundargötu 2.

Andmælendur eru dr. Andrew Estefan, dósent við University of Calgary í Kanada, og dr. Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir á geðdeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss.

Aðalleiðbeinandi Margrétar var dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við sömu deild, dr. Helga Zoéga, prófessor við Læknadeild, og dr. Janet Treasure, prófessor við King´s College í London.

Dr. Helga Jónsdóttir, prófessor og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.13.00.

Ágrip af rannsókn
Markmið rannsóknarinnar var að þróa og meta próffræðilega eiginleika  íslenska veikinda-fjölskyldu-viðhorfa-spurningalistans (IS – Viðhorf) og þróa og meta árangur íhlutunar-meðferðarsamræðna fyrir umönnunaraðila dóttur/sonar með átröskun eða með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD). 

Umönnunaraðilar ungs fólks með átröskun eða ADHD ganga í gegnum erfiðleika og hafa þörf fyrir stuðning. Íhlutun með þjálfun getur hjálpað umönnunaraðilum að öðlast færni í hjálplegum aðferðum.

IS-Viðhorfa-spurningalistinn var þróaður og próffræðilegir eiginleikar metnir. Íhlutunarrannsóknirnar voru hálfstaðlaðar tilraunarannsóknir. Kenningafræðilegur grunnur rannsóknanna voru Calgary fjölskyldumats- og meðferðalíkönin, Veikinda-viðhorfalíkanið og Nýja Maudsley-aðferðin. Íhlutunin samanstóð af fræðslu, verkefnum og meðferðarsamræðum varðandi erfiðar tilfinningar, hegðun og hjálplegar aðferðir. Árangur íhlutunarinnar var metinn í fjölskyldustuðningi, veikindaviðhorfum og lífsgæðum, áliti á eigin færni, að takast á við einkenni sjúkdóms og álagi á umönnunaraðila, almennri líðan, fjölskylduvirkni og aðlögunarleiðum. Mælingar voru gerðar eftir íhlutun og í endurkomu.

IS-Viðhorfa-spurningalistinn var prófaður með greinandi þáttagreiningu (EFA) sem endaði með einn þátt og staðfestur í staðfestandi þáttagreiningu. Meðferðaríhlutunin var prófuð með dreifigreiningu (ANOVA) og með pöruðu t-prófi. Marktækur munur kom fram hjá aðalumönnunaraðila einstaklinga með átröskun í upplifuðum stuðningi, veikindaviðhorfum, lífsgæðum, áliti á eigin færni, umönnunarálagi og erfiðri hegðun sjúklings. Marktækar breytingar á lífsgæðum komu fram hjá aðalumönnunaraðila einstaklinga með ADHD. Félagsleg virkni var marktækt betri hjá hinum umönnunaraðila einstaklinganna en fjölskylduvirkni og samvinna var marktækt minni.

Rannsóknirnar varpa ljósi á hvernig fagaðilar geta stutt umönnunaraðila ungs fólks með átröskun eða með athyglisbrest og ofvirkni. 

Um doktorsefnið
Margrét Gísladóttir lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981, prófi í fjölskyldumeðferð frá UCL í London árið 2000 og MS-gráðu í geðhjúkrun frá Háskóla Íslands árið 2007. Margrét er sérfræðingur í hjúkrun á Landspítalanum og teymisstjóri í átröskunarteymi BUGL. Hún er jafnframt stundakennari við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Margrét er gift Haraldi H. Helgasyni viðskiptafræðingi og á hún þrjár dætur. Hrund, sem er klínískur sálfræðingur, Höllu Sif, sem er sérfræðinemi í krabbameinslækningum, og Hauði Freyju, sem er doktor í taugavísindum og framhaldsdoktorsnemi við UCL. Stjúpsonur Margrétar er Magnús, sem starfar sem lagermaður hjá Eimskipum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is